Skipulag haf- og strandsvæða í landsskipulagsstefnu

Stefna um skipulag haf- og strandsvæða er sett fram í landsskipulagsstefnu.

Þingsályktun um Landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024 til 2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028 var samþykkt af Alþingi vorið 2024. Landsskipulagsstefna kveður á um samræmda stefnu ríkisins í skipulagsmálum í heild og tekur til landsins alls og haf- og strandsvæða.

Í landsskipulagsstefnu 2024-2038 eru sett fram níu lykilviðfangsefni og er eitt þeirra skipulag á haf- og strandsvæðum. Stefnan byggir á eftirfarandi markmiðum sem byggja á sjálfbærri þróun:

A. Vernd umhverfis og náttúra

B. Velsæld samfélags

C. Samkeppnishæft atvinnulíf

Undir hverju markmiði eru settar fram áherslur ásamt tilmælum um framfylgd þeirra á miðhálendi, í dreifbýli, þéttbýli og á haf- og strandsvæðum í kringum landið. Aðgerðaáætlun sem fylgir stefnunni, felur jafnframt í sér tiltekin verkefni til að hrinda markmiðum hennar í framkvæmd. Hér fyrir neðan má sjá annars vegar þær áherslur sem snúa beint að skipulagi haf- og strandssvæða og framfylgd þeirra, og hins vegar þær aðgerðir sem snúa beint að skipulagi haf- og strandsvæða í landsskipulagsstefnu. 

 

 

Áherslur og framfylgd

 

Áhersla A.1: Skipulag feli í sér stefnu um loftslagsmál með kolefnishlutleysi og orkuskipti að leiðarljósi. Stefnt verði að því að draga eins og kostur er úr losun gróðurhúsalofttegunda og jarðefnaeldsneyti fasað út í lofti, á láði og legi.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Við skipulagsgerð verði mörkuð stefna um loftslagsmál. Hún feli í sér stefnu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá byggð, samgöngum og landnotkun og að auka kolefnisbindingu, með kolefnishlutleysi að leiðarljósi.
  • Skipulag miði að eins miklum og skjótum árangri og kostur er við að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda. 
  • Skipulagsákvæði um þróun byggðar, samgöngur og landnotkun verði útfærð og, eftir því sem við á, sett mælanleg markmið um árangur í loftslagsmálum. 
  • Umhverfismat skipulagsáætlana feli í sér mat á loftslagsáhrifum skipulagstillagna og annarra valkosta um stefnu og útfærslu byggðar, samgangna og landnotkunar, sem til greina koma. 
  • Í skipulagi skuli horfa til losunar frá landi og landnotkun og áhrifa ólíkrar landnotkunar á getu jarðvegs og gróðurs til að binda kolefni. Nýtt verði besta fáanlega þekking á samspili landnotkunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. 
  • Skipulag taki mið af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og bestu fáanlegu leiðbeiningum um loftslagsmiðað skipulag. 

Áhersla A.4: Skipulag stuðli að verndun og varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni, sérstæðrar náttúru og menningarminja.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Við skipulag haf- og strandsvæða verði líffræðilegri fjölbreytni og framleiðslugetu hafsins viðhaldið með því að standa vörð um vistkerfi og ástand sjávar, m.a. með ástandsmati og vöktun. (H)
  • Skipulag haf- og strandsvæða viðhaldi sérkennum og náttúrugæðum með verndun sérstæðrar náttúru og menningarminja. 

 

Áhersla A.5: Skipulag miði að því að varðveita fjölbreytt og verðmætt landslag, svo sem óbyggð víðerni og landslagsheildir.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum verði gætt að varðveislu verðmæts landslags, landslagsheilda og óbyggðra víðerna á landi. 

Áhersla A.6: Skipulagsgerð vegna orkunýtingar gæti að náttúruvernd.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Nýting vistvænna orkuauðlinda á haf- og strandsvæðum verði í sátt við umhverfi og samfélag, þannig að staðinn verði vörður um sérkenni svæða og tekið tillit til grenndarhagsmuna og annarrar nýtingar. 

Áhersla B.1: Skipulag feli í sér stefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum sem styrkir viðnámsþrótt viðkomandi samfélags til langs tíma.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Við gerð strandsvæðisskipulags verði tekið mið af bestu fáanlegu upplýsingum um áhrif loftslagsbreytinga, svo sem um breytingar á sjávarborði, hlýnun og súrnun sjávar og röskun búsvæða. 

Áhersla B.3: Skipulag tryggi tækifæri fyrir ólíka félagshópa til að hafa áhrif á ákvarðanir um nærumhverfi sitt.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Við skipulagsgerð verði möguleiki íbúa til að hafa áhrif á mótun nærumhverfis síns tryggður í öllu skipulagsferlinu; frá forsendugreiningu til tillögugerðar og kynningar endanlegra skipulagstillagna. 
  • Beitt verði fjölbreyttum aðferðum við kynningu og samráð til að tryggja aðgengi að upplýsingum og möguleika ólíkra félagshópa til þátttöku. 
  • Hugað verði að skýrri og góðri framsetningu skipulagsgagna sem auðvelda almenningi að kynna sér tillögur og tileinka sér efni þeirra.

Áhersla B.4: Skipulag greiði fyrir skilvirkum samgöngum þar sem jafnvægi milli ólíkra ferðamáta verði haft að leiðarljósi.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Á haf- og strandsvæðum verði tryggðar öruggar og greiðar samgöngur og gott aðgengi að höfnum. Í því felst að ákvarðanir um staðbundna nýtingu byggist á mati á siglingaöryggi. 

Áhersla B.5: Skipulag stuðli að jöfnu aðgengi að orku um land allt og traustum veituinnviðum sem tryggja örugga afhendingu orku.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum stuðli að öruggum raforku- og fjarskiptastrengjum fyrir íbúa og atvinnulíf, þar sem tekið verði mið af annarri starfsemi á viðkomandi svæði, svo sem veiðum og staðbundinni nýtingu við ákvörðun um staðsetningu þeirra.
  • Stuðlað verði að heilnæmu umhverfi með viðeigandi ráðstöfunum varðandi vatnsvernd við uppbyggingu vatns- og fráveitu. 

Áhersla B.6: Skipulag geri nauðsynlegar ráðstafanir til að stuðla að öryggi almennings gagnvart náttúruvá.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Við skipulag á haf- og strandsvæðum verði tekið tillit til náttúruvár. Við greiningu á valkostum fyrir staðbundna nýtingu á strandsvæðum verði metið, eins og kostur er, hvort fyrirhugaðri starfsemi stafi hætta af náttúruvá.

Áhersla B.7: Skipulag feli í sér stefnu um yfirbragð byggðar og annarra mannvirkja, skapi aðlaðandi og öruggt umhverfi og veiti möguleika til hreyfingar, endurnæringar og samskipta í nærumhverfi.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Við skipulag á strandsvæðum verði stuðlað að gæðum umhverfis við ströndina og vandað til staðarvals, yfirbragðs og hönnunar mannvirkja. Tekið verði mið af staðareinkennum og staðbundnum gæðum sem felast í menningarminjum, náttúru og landslagi.
  • Við skipulagsgerð verði gætt að greiðu aðgengi almennings að strandsvæðum til útivistar, hreyfingar og náttúruupplifunar.

Áhersla B.10: Skipulag geri viðeigandi ráðstafanir varðandi heilnæmi umhverfis.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Skipulag strandsvæða stuðli að bættum loftgæðum í höfnum og á strandsvæðum með áherslu á orkuskipti.

 

Áhersla C.1: Skipulag feli í sér stefnu um bindingu kolefnis með kolefnishlutleysi að leiðarljósi.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Nýting haf- og strandsvæða til bindingar kolefnis verði í sátt við umhverfi og náttúru, þannig að staðinn verði vörður um ástand sjávar, framleiðslugetu hafsins og þá nýtingu sem fyrir er.

 

Áhersla C.2: Skipulag stuðli að orkuskiptum og að orkuauðlindir verði nýttar með sjálfbærum hætti, með það að leiðarljósi að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og tryggja orkuöryggi.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Nýting endurnýjanlegrar orkuframleiðslu á haf- og strandsvæðum verði í sátt við umhverfi og samfélag, þannig að staðinn verði vörður um sérkenni svæða og tekið tillit til grenndarhagsmuna og annarrar nýtingar.

 

Áhersla C.3: Skipulag feli í sér stefnu um nýtingu vindorku í sátt við umhverfi og samfélag.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Nýting vistvænna orkuauðlinda á haf- og strandsvæðum verði í sátt við umhverfi og samfélag, þannig að staðinn verði vörður um sérkenni svæðis og tekið tillit til grenndarhagsmuna og annarrar nýtingar. 

 

Áhersla C.4: Skipulag stuðli að sjálfbærri nýtingu vatns.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Skipulag haf- og strandsvæða stuðli að góðu ástandi strandsjávar til þess að vernda vatn og vistkerfi þeirra. Það felur m.a. í sér að ákvarðanir um nýtingu haf- og strandsvæða rýri ekki ástand sjávar og miði að því að bæta ástand vatnshlota sem eru undir álagi.
  • Skipulagsgerð sé í samræmi við vatnaáætlun og þekkingu á stöðu vatnshlota. 

 

 

Áhersla C.5: Skipulag haf- og strandsvæða skapi grundvöll fyrir fjölbreytta nýtingu jafnframt því sem viðhaldið verði mikilvægum auðlindum hafsvæða við Ísland og tekið tillit til öryggis sjófarenda.

Framfylgd við skipulagsgerð:

 

  • Til grundvallar skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum verði lögð gögn um nýtingu haf- og strandsvæða, þ.m.t. um veiðar, staðbundna nýtingu, svo sem eldi og ræktun nytjastofna og efnistöku, ásamt gögnum um siglingar og siglingamerki, veitumannvirki og ferðaþjónustu.

 

 

Áhersla C.6: Skipulag stuðli að uppbyggingu atvinnulífs til framtíðar með áherslu á eftirsóknarvert umhverfi og sjálfbæra nýtingu lands.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Skipulag haf- og strandsvæða stuðli að sjálfbærri atvinnustarfsemi sem nýtir styrkleika svæðis til framtíðar.

 

 

Áhersla C.7: Skipulag um uppbyggingu ferðaþjónustu gæti að varðveislu þeirra gæða sem hún byggist á.

Framfylgd við skipulagsgerð á haf- og strandsvæðum:

 

  • Skipulagsákvarðanir um uppbyggingu ferðaþjónustu og ferðamannastaða taki mið af áfangastaðaáætlunum landshlutanna. (D, Þ, H)
  • Við skipulag haf- og strandsvæða verði mótuð umgjörð fyrir starfsemi ferðaþjónustu sem tekur jafnframt tillit til þolmarka náttúru, innviða og samfélags, m.a. í tengslum við umferð skemmtiferðaskipa. (H)
  • Í skipulagi verði hugað að varðveislu landslags á strandsvæðum sem aðdráttarafls fyrir ferðamenn.

 

 

Aðgerðir sem snúa beint að skipulagi haf- og strandsvæða

 

Gerð strandsvæðisskipulags fyrir Eyjafjörð

Unnið verði strandsvæðisskipulag fyrir Eyjafjörð, sbr. lög um skipulag haf- og strandsvæða. Gert er ráð fyrir að skipulagssvæðið afmarkist af Siglunesi í vestri og Bjarnarfjalli í austri. Ráðherra skipi svæðisráð um gerð strandsvæðisskipulags á svæðinu í samvinnu við Skipulagsstofnun. Svæðisráð beri ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags.

 

Gerð strandsvæðisskipulags fyrir Skjálfandaflóa

Unnið verði strandsvæðisskipulag fyrir Skjálfandaflóa, sbr. lög um skipulag haf- og strandsvæða. Gert er ráð fyrir að skipulagssvæðið afmarkist af Bjarnarfjalli í vestri og Tjörnestá í austri. Ráðherra skipi svæðisráð um gerð strandsvæðisskipulags á svæðinu í samvinnu við Skipulagsstofnun. Svæðisráð beri ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags.

Forgangsröðun verkefna vegna skipulags strandsvæða

Unnin verði greining á því hvaða svæði skulu hafa forgang við gerð strandsvæðisskipulags. Við þá vinnu verði haft samráð við landshlutasamtök sveitarfélaga og ráðgefandi aðila samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Með ráðgefandi aðilum er vísað til fagstofnana sem fara með málaflokka sem varða nýtingu og vernd á haf- og strandsvæðum og vatnasvæðisnefndir samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.

Stjórnsýsla á hafsvæðum utan strandsvæða

Greint verði hver ber ábyrgð á mismunandi ákvörðunum um nýtingu eða vernd hafsvæða utan strandsvæða eins og þau eru skilgreind í lögum um skipulag haf- og strandsvæða, nr. 88/2018, og hvernig ferli ákvarðanatöku er uppbyggt. Á grunni greiningar verði gerð tillaga að skilvirku ferli við töku ákvarðana sem tryggir aðkomu þeirra stjórnvalda og hagsmunaaðila sem fara með ólík málefni nýtingar og verndar á hafsvæðum.

 



Athugið að aðrar aðgerðir geta snúið óbeint að skipulagi haf- og strandsvæða, t.a.m. aðgerðir sem snúa að leiðbeiningu eða aðgengi að upplýsingum. Nánar er fjallað um landsskipulagsstefnu í heild sinni á landsskipulag.is