Staðfest strandsvæðisskipulag
Strandsvæðisskipulag fyrir Vestfirði og Austfirði tók gildi vorið 2023. Þá voru tillögur svæðisráða að strandsvæðisskipulagi hvors svæðis fyrir sig staðfestar af innviðaráðherra og birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Eru þetta fyrstu skipulagsáætlanirnar sem taka til fjarða og flóa við strendur landsins.
Hér til hliðar má finna upplýsingar og gögn sem urðu til við gerð gildandi strandsvæðisskipulags, allt frá skipulagslýsingu og skipun í svæðisráð, til staðfestra uppdrátta og greinargerða.
Strandsvæðisskipulag er unnið að grundvelli laga um skipulag haf- og strandsvæða nr. 88/2018. Svæðisráð, skipuð árið 2019, bera ábyrgð á skipulagsgerðinni en í þeim sitja fulltrúar aðliggjandi sveitarfélaga, Sambands íslenskra sveitarfélaga og þriggja ráðuneyta. Skipulagsstofnun er svæðisráðum innan handar og annaðist stofnunin mótun skipulagsins, úrvinnslu umsagna, kynningu á tillögum í umboði svæðisráðanna ásamt því að sinna framfylgd skipulagsáætlananna eftir gildistöku þeirra.
Víðtækt samráð var viðhaft við gerð skipulagsins, jafnt við íbúa, sveitastjórnir, hafnarstjórnir og hagsmunaaðila sem og sérstaka samráðshópa. Einnig voru ýmsar stofnanir ráðgefandi í skipulagsferlinu, en þar má nefna Hafrannsóknarstofnun, Náttúrufræðistofnun, Náttúrfræðistofa Austfjarða og Náttúrustofa Vestfjarða, Samgöngustofa, Vegagerðin og Umhverfisstofnun.